Menntun og frístund
Menntun og frístund
Fræðslumál eru einn þýðingarmesti málaflokkur sem sveitarfélög annast og í sífelldri þróun. Sveitarfélög verja um það bil helmingi útgjalda sinna í rekstur leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og margvíslega aðra fræðslustarfsemi.
Leikskólar
Leikskóli er fyrsta skólastigið í skólakerfinu samkvæmt lögum nr.90/2008 um leikskóla og er ætlaður börnum undir skólaskyldualdri. Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla. Lögin kveða á um að sveitarfélög hafi forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og beri ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélaganna. Hvert sveitarfélag skal setja sér almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess.
Grunnskólar
Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91 frá 2008 er rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Þau bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum þeirra, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Þá er þeim skylt að sjá til þess að öll skólaskyld börn njóti skólavistar sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra.
Skólaskylda er að jafnaði tíu ár en getur verið skemmri. Þannig er öllum börnum og unglingum að jafnaði á aldrinum 6–16 ára skylt að sækja grunnskóla.
Skólaskrifstofur
Hér má finna upplýsingar um skólaskrifstofur sem starfa og hafa verksvið samkvæmt ákvörðun þeirra sveitarfélaga og eiga aðild að þeim. Á þessum lista eru þær skólaskrifstofur sveitarfélaga sem sjá um skólaþjónustu og/eða faglega rekstrarstýringu skóla og/eða bera ábyrgð á henni.
Aðilar, sem eingöngu fjalla um launaútreikninga og/eða reikningshald fyrir skóla, eru ekki meðtaldir. Breytingar eða leiðréttingar á þessum lista á að senda til Sambands íslenskra sveitarfélaga Borgarúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík eða á netfangið: samband@samband.is