Forvarnir
Forvarnir
Í þingsályktunartillögu 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreiti (forvarnaráætlun) er sett fram sú framtíðarsýn að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér hvergi stað í íslensku samfélagi. Þar er vísað til þess að ofbeldi og áreitni er samfélagslegur vandi og því þarf að uppræta þá þætti í samfélagsgerðinni sem leyfa slíku ofbeldi að viðgangast. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er bæði orsök og afleiðing annars kynjamisréttis og verður aðeins upprætt með samhentu átaki sem byggir á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum slíks ofbeldis. Öflug forvarnastefna er lykilþáttur í þeirri vegferð. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni – og hegðun sem ýtir undir slíkt – er liður í forvörnum til framtíðar. Þannig er ekki aðeins nægjanlegt að fjalla um ofbeldi og áreitni heldur þarf einnig að ýta undir samskipti virðingar og jafnréttis fólks í milli.
Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á hvergi að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Á vefnum Stopp ofbeldi! er að finna hugmyndir að fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk um kynbundið ofbeldi og áreiti.
Farsæld barna
Sveitarfélögin taka virkan þátt í innleiðingu farsældarlaga og verkefnum tengd henni. Bent er á vef farsældar hér að neðan, sem settur var upp af Barna- og fjölskyldustofu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Íslenska æskylýðsrannsóknin
Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Háskóli Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmið verkefnisins er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og gera niðurstöður aðgengilegar til að styðja við stefnumótun. Ingimar Guðmundsson er verkefnisstjóri íslensku æskulýðsrannsóknarinnar hjá Sambandinu.