Fara í aðalefni

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að mæta áskornum samtímans á sviði loftslagsmála. Sameiginlegur slagkraftur þeirra skiptir sköpum til að greiða fyrir þeim umskiptum sem þurfa að eiga sér stað til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og að Ísland nái að standa við loforð sitt um kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt mun sú aðlögun íslensks samfélags að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga ekki eiga sér stað án aðkomu sveitarfélaganna. Sveitarstjórnir skulu samþykkja loftslagsstefnu samkvæmt breytingu á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál 14. júní 2019.

Sveitarfélög hafa í sífellt auknu mæli unnið að loftslagsmálum með beinum hætti. Mörg hafa unnið með losun frá samfélaginu öllu en ekki einungis rekstri. Þessi vinna hefur í einhverjum tilfellum verið unnin á vettvangi landssambanda sveitarfélaga. Sum sveitarfélög eru aðilar að Covenant of Mayors for Climate & Energy og  skila losunarbókhaldi frá öllu samfélaginu í gegnum alþjóðlega fyrirtækið CDP. Þar er losun frá rekstri hluti af losunarbókhaldinu. Sveitarfélög geta nýtt sér Loftslagsmæli Festu og losunarstuðla Umhverfisstofnunnar til að útbúa losunarbókhald fyrir sinn rekstur. Í báðum tilfellum þarf að færa gögn handvirkt inn. Til er búnaður sem tengist gagnagrunnum og metur losun sjálfvirkt. 

Verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum er ætlað að efla og styðja íslensk sveitarfélög við að vinna aðgerðamiðaða stefnumótun í loftslagsmálum, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn.  Í verkfærakistunni er að finna ýmiss konar verkfæri og fróðleik sem gerir sveitarfélögum kleift að meta losun frá rekstri sínum og móta sér viðeigandi markmið og aðgerðir í loftslagsmálum sem eru grunnur fyrir árangursríka loftslagsstefnu. Verkfærakistan var mótuð í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar, sem sér um að hýsa og uppfæra hana