Umhverfismál
Hringrásarhagkerfið
Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis.
Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Umfangsmiklar breytingar urðu að lögunum í júní 2021 ásamt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald. Þessum breytingum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Sambandið hefur tekið saman helstu breytingar og þýðingu fyrir sveitarfélög í grein í 2. tbl. Sveitarstjórnarmála árið 2021. Ljóst er að öll sveitarfélög munu þurfa að endurskoða þau stjórntæki sem þau hafa á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs.
Evrópusambandið (ESB) hefur lagt áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis síðan 2014. Innleiðing ESB á hringrásarhagkerfinu byggir í grunnunn á fimm tilskipunum. Fjórar þeirra voru samþykktar 2018 og komu í kjölfar yfirgripsmikillar endurskoðunar á Evrópulöggjöfinni um úrgang, sem hefur þann megintilgang að innleiða hringrásarhagkerfi og slíta tengslin milli hagvaxtar og myndunar úrgangs. Sú fimmta fjallar um plastvörur og var samþykkt 2019. Íslensk stjórnvöld hafa tekið upp hluta þessara tilskipana í gegnum EES samninginn.
Handbók um úrgangsstjórnun
Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga er vegvísir sveitarfélaga og verkfærakista í úrgangsmálum. Þar er að finna stefnumótandi ákvarðanir og upplýsingar um þjónustu sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á samkvæmt lögum, en þar má einnig finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana. Til viðbótar hefur sambandið tekið saman helstu spurningar og svör er varða breytingar á úrgangsstjórnun sveitarfélaga.