Umhverfismál
Sjóðasókn
Í gegnum aðild Íslands að EES samningnum, hafa íslensk sveitarfélög aðgang að þónokkrum Evrópuáætlunum sem eiga það sameiginlegt að úthluta fjármunum til góðra verkefna. Þær hafa hver sín ólíku markmið en er þó öllum ætlað að vinna í þágu langtíma markmiða Evrópusambandsins. Fyrir ríki sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu þarf að semja sérstaklega um aðild að hverri áætlun til sjö ára í senn og greiða fyrir þá þátttöku. Núverandi áætlanatímabil hófst árið 2021 og mun standa til ársins 2028. Flestar þessara áætlana eru samkeppnissjóðir sem þýðir að fé er ekki eyrnamerkt ákveðnum löndum heldur keppa aðilar um styrki á jafningjagrundvelli. Það skiptir því miklu máli að vanda vel til umsókna. Það hefur ekki reynst Íslendingum mikil hindrun þar sem frá upphafi sinnar þátttöku hafa íslenskir umsækjendur fengið mun meira fé í styrki en lagt hefur verið í þessar áætlanir. Sem dæmi má nefna að meira en 30.000 Íslendinga hafa ferðast og menntast á vegum Erasmus+ áætlunarinnar. Auk þess hefur rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, sem nú nefnist Horizon Europe, verið burðarbein í íslenska vísindasamfélaginu og tryggt fjármagn til rannsókna og alþjóðlegs samstarfs fyrir tugi milljarða.
Ný tækifæri fyrir sveitarfélög
Lengi framan af var ekki mikið um tækifæri fyrir sveitarfélög á Íslandi til að sækja í þessa sjóði. Það er þó óðum að breytast og frá og með árinu 2021 hafa skapast gríðarleg sóknarfæri. Það ár var gerð breyting á áherslum innan rannsókna- og nýsköpunaráætluninni á þann veg að hún stendur nú mun fjölbreyttari markhópi til boða en áður og geta sveitarfélög nú tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum um fjöldamörg viðfangsefni. Þar að auki var samið um aðild Íslands að Digital Europe, sem fjármagnar m.a. starfræna umbreytingu og er ætlað að styrkja sjálfstæði og alþjóðlega samkeppnishæfi Evrópu í þessum málaflokki. Auk þessa geta Íslendingar nú sótt í LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun ESB en þegar hafa þónokkur íslensk verkefni fengið styrki þaðan. Styrkirnir eru misháir og snúast um að fjármagna verkefni á sviðum náttúrverndar, loftslagsmála, orkuskipta og hringrásarhagkerfis.
Reynsla sveitarfélaga af samstarfsverkefnum sem fjármögnuð eru af ESB er almennt mjög góð og frekari þátttaka í samstarfsáætlunum ESB myndi skapa fjölmörg tækifæri fyrir sveitarfélög á Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Þar um ræðir hvort tveggja: aukinn aðgang að fjármagni og ríkara samstarf við sveitarfélög á EES svæðinu.