Fara í aðalefni

Heil­brigð­is­eft­ir­lit

Sveitarfélög reka undir stjórn heilbrigðisnefnda, heilbrigðiseftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Yfirstjórn mála samkvæmt lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir er í höndum umhverfisráðuneytisins. Umhverfisstofnun gegnir samræmingarhlutverki varðandi starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hvað varðar hollustuhætti og mengunarvarnir. Yfirstjórn matvælamála er hjá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Matvælastofnun hefur yfirumsjón með starfsemi heilbrigðiseftirlitsins hvað varðar matvælaeftirlit. Boðvald gagnvart starfsleyfisskyldum rekstri er í höndum heilbrigðisnefnda.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eru 9 talsins og er skipan þeirra ákveðin í áðurnefndum lögum. Starfsemi heilbrigðiseftirlitssvæða er fjármögnuð að hluta með starfsleyfis- og eftirlitsgjöldum skv. gjaldskrá. Þessi gjöld eru oftast u.þ.b. helmingur af rekstrarútgjöldum heilbrigðiseftirlitsins. Afganginn greiða sveitarfélögin hlutfallslega miðað við íbúafjölda.

Heilbrigðiseftirlitssvæðin 9 hafa með sér mikla samvinnu og hafa með sér formleg samtök: Samtök Heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi. Samtökin hafa að markmiði að standa vörð um heilbrigðiseftirlit á Íslandi og stuðla að árangursríku, óháðu og faglegu eftirliti.

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.