Evrópusamvinna
Úttekt eftirlitsnefndar Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins samþykkt í Strassborg
16. október 2024
Úttekt eftirlitsnefndar Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins um stöðu íslenskra sveitarfélaga við framkvæmd Sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga var samþykkt á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins í Strassborg í dag.
Sáttmálanum, sem samþykktur var árið 1985, er til að mynda ætlað að tryggja réttindi sveitarstjórna til sjálfstjórnar og réttinn til að búa yfir stjórnsýslusinnviðum og fjárhagslegu bolmagni. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambandsins, Hildur Björnsdóttir, formaður íslensku sendinefndarinnar, og Walter Fannar Kristjánsson, sem bæði sitja í stjórn Sambandsins, voru á þinginu og fylgdu eftir sjónarmiðum sveitarfélaga til úttektarinnar. Í kjölfarið mun Sambandið fylgja ábendingum úttektarinnar enn frekar eftir við ráðherra sveitarstjórnarmála og treystir á að tekið verði jákvætt í að ráðast í þau verkefni sem lögð eru til í úttektinni.
Fjárhagslegu sjálfstæði sveitarfélaga er fagnað í úttektinni, talið er jákvætt að ríkið hyggist endurskoða samráðsaðferðir varðandi kostnaðarmat sem og Jöfnunarkerfið og að ríkisframlög hafi aukist. Þá er sérstaklega tiltekið að íslensk sveitarfélög séu leiðandi á heimsvísu hvað varðar þátttöku kvenna í sveitarstjórnum.
Í úttektinni er vakin sérstök athygli á óskýrri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, skorti á lögfestingu sáttmálans, ófullnægjandi fjármögnun verkefna sveitarfélaga sem og ófullnægjandi samráði um kostnaðarmat verkefna. Þá kemur fram að mikill fjöldi samninga milli sveitarfélaga um einstök verkefni skapi hættu á ógagnsæi og óskýrri ábyrgðarskiptingu, og að jöfnunarkerfið sé ekki nógu skilvirkt. Jafnframt skorti á að Reykjavík hafi fengið sérstaka lagalega stöðu sem höfuðborg landsins.
Því lagt til að íslensk stjórnvöld grípi til eftirfarandi aðgerða:
1. Skýri ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga
2. Lögleiði sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga
3. Tryggi að sveitarfélög hafi fullnægjandi fjármuni til að sinna lögbundnum verkefnum sem og til að sinna valkvæðum verkefnum í þágu íbúa
4. Klári breytingar á jöfnunarkerfinu
5. Veiti Reykjavík sérstaka stöðu að lögum sem höfuðborg landsins
6. Stuðli að frekari sameiningu sveitarfélaga m.a. með frekari hvötum
7. Bæti kerfið í kringum samvinnu sveitarfélaga með nýjum tegundum af samvinnuformum sem mæti þörfum bæði dreifbýlis og þéttbýlis og auki gagnsæi og skýri ábyrgð
8. Bæti ferli við gerð kostnaðarmats
9. Staðfesti viðauka við sáttmálann um rétt borgaranna til þátttöku í starfi sveitarfélaga
Sendinefndin kom til Íslands í janúar síðastliðnum í þeim tilgangi að taka út framkvæmd Íslands á sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga. Er þetta þriðja slíka úttektin sem fer fram á stöðu Íslands gagnvart sáttmálanum. Fulltrúar Sambandsins funduðu þá með sendinefndinni og svöruðu fjölbreyttum spurningum bæði á fundinum og skriflega eftir fundinn. Í heimsókn sinni til Íslands fundaði sendinefndin einnig með fulltrúum Reykjavíkurborgar, Árborgar, Mýrdalshrepps, Kópavogsbæjar og Reykjanesbæjar ásamt því að heimsækja, Alþingi, Hæstarétt og innviðráðuneytið.
Sveitarstjórnarþingið, „Congress of Local and Regional Authorities“, er ein af stofnunum Evrópuráðsins. Þingið er eina stofnunin sinnar tegundar í Evrópu sem hefur með höndum að meta framkvæmd lýðræðis í sveitarfélögum og héruðum í öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Á þinginu eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og svæðum í Evrópu. Þingfulltrúar eru 324 og þeir eru fulltrúar yfir 150.000 sveitarfélaga og svæða í Evrópu.