Forvarnir
Sexan stuttmyndakeppni 2025 er hafin
3. febrúar 2025
Í dag var opnað fyrir innsendingar í Sexuna, stuttmyndakeppni fyrir nemendur í 7. bekki í grunnskólum landsins.
Hámarkslengd stuttmyndar er 3 mínútur og hver skóli getur einungis sent þrjár stuttmyndir. Lagt er upp með að umfjöllunarefni stuttmyndanna sé eitthvað af eftirfarandi: Tæling, nektarmynd, samþykki eða slagsmál ungmenna. Nemendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, kvikmyndatöku og eftir vinnslu. Nemendur af erlendum uppruna, hinsegin og fatlaðir nemendur eru sérstaklega hvattir til að taka þátt. Mikilvægt er að huga að uppbyggilegri nálgun og beina sjónum að lausnum.
Tekið er á móti stuttmyndum í gegnum innsendingargátt Sexunnar á vef Neyðarlínunnar sem opnar 3. febrúar og er opin til 8. apríl 2025. Myndirnar skuli vera merktar nafni skóla, nafni stuttmyndar og heiti bekkjarins. Dómnefnd skipuð fulltrúum ungmennaráðs, RÚV, MMS og fulltrúa kvikmyndagerðar munu svo velja þrjár bestu myndirnar sem verða kynntar á vef UngRÚV.
Kjarni verkefnisins er að ungt fólk fræði ungt fólk. Þau eru best til þess fallin að varpa ljósi á þeirra veruleika og hvar helstu áskoranirnar leynast í daglegu lífi ungmenna. Verðlaunamyndirnar verða sendar í alla grunnskóla landsins sem fræðsluefni um stafrænt ofbeldi og nýtast þannig þeim skólum sem ekki taka þátt sem og komandi kynslóðum.
Sexan er nú haldin í þriðja sinn. Sigurvegari Sexunnar 2023 var Selásskóli með stuttmyndina „Friend Request“ og sigurvegari Sexunnar 2024 var Smáraskóli með myndina „Vinir í raun“. Þær stuttmyndir sem hlutu 1.-3. verðlaun í fyrri keppnum má finna bæði á Youtube rás Neyðarlínunnar og á vef Neyðarlínunnar: 112.is/sexan. Þar má einnig finna frekari fræðslu um viðfangsefnin, innsendingargáttina og góð ráð fyrir stuttmyndagerð.
Boðið verður upp á upplýsingafund fyrir áhugasöm um þátttöku á fimmtudaginn 6. Febrúar kl. 14.30. Hér er hlekkur á fundinn.
Sexan er forvarnar- og fræðsluverkefni breiðrar fylkingar samstarfsaðila sem láta sig heilsu og velferð ungmenna varða: Neyðarlínan, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa, Barna- og fjölskyldustofa, Heilsueflandi grunnskóli, Fjölmiðlanefnd, Samskiptafulltrúi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Barnaheill, Ríkislögreglustjóri, Miðstöð mennta- og skólaþróunar og RÚV.