Umhverfis Ísland
Upptaka: sveitarfélög og innleiðing reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu
11. mars 2025
Þann 10. mars sl. hélt Sambandið kynningarfund í samstarfi við Land og skóg um hlutverk sveitarfélaga við innleiðingu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu. Mæting var mjög góð og var áhugi sveitarfélaga áþreifanlegur í umræðunum sem sköpuðust.

Markmið reglugerðarinnar sem um ræðir er að tryggja sjálfbæra nýtingu lands á Íslandi og tók hún gildi 1. september 2024. Í grófum dráttum er sjálfbær landnýting skilgreind þannig að nýtingin gangi ekki á auðlindir landsins án þess að þær séu endurheimtar og að framvinda og virkni vistkerfa haldist. Mat á ástandi lands sem Land og skógur ber ábyrgð á er grundvöllurinn að framkvæmd reglugerðarinnar og leiðir þetta mat til flokkunar lands í fjóra flokka.
Nánari útskýringar á reglugerðinni og aðkomu sveitarfélaga að innleiðingu hennar má finna í upptöku af kynningarfundinum.
Í kjölfar kynningarinnar frá fulltrúum Lands og skógar sköpuðust góðar umræður um túlkun á ákveðnum atriðum reglugerðarinnar, hvernig eftirlitsskylda skiptist milli Lands og skógar og sveitarfélaga o.fl. Í mörgum tilfellum eru mörkin vel skilgreind en undir ákveðnum kringumstæðum getur verið erfitt að áætla hvar ábyrgð mismunandi aðila liggur. Vinna þarf áfram að því að skerpa einhverjar línur og kom fram skýr vilji aðila um að eiga áfram í góðum samskiptum um þessi mál.