Umhverfis Ísland
Borgað þegar hent er: árangur til þessa og næstu skref
10. mars 2025
Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, hefur á undanförnum árum unnið með sveitarfélögum um allt land að innleiðingu Borgað þegar hent er (BÞHE) kerfis í úrgangsstjórnun.

Markmiðið er að einfalda og straumlínulaga innheimtu gjalda fyrir sorphirðu heimila og auka hvata til bættrar flokkunar. Verkefnið tengist innleiðingu Evróputilskipunar um bætta úrgangsstjórnun, sem leiddi til lagabreytinga á árinu 2023 þegar hin svokölluðu Hringrásarlög tóku gildi hér á Íslandi. Lögin kveða á um að innheimta skuli gjald fyrir raunkostnað við meðhöndlun úrgangs. Til að byrja með og fram til ársloka 2024 mátti fast gjald sem sveitarfélög innheimta vera að hámarki 50% af heildarkostnaði við úrgangsmál hjá hverju sveitarfélagi en má nú vera allt að 25% af þessum heildarkostnaði.
Árangur hingað til
Hraðall var settur af stað í lok árs 2022 til að aðstoða sveitarfélög við innleiðingu BÞHE. Greiningar voru gerðar, þar sem m.a. var lagt til að innheimta ætti að byggja á rúmmáli íláta, en að síðar gæti verið skipt yfir í þyngdarmælingu. Sex fræðslufundir voru haldnir og 37 sveitarfélög tóku þátt. Af þeim hafa 25 lokið við innleiðingu og um 70% landsmanna búa í dag við nýja gjaldtöku sem tekur mið af BÞHE að einhverju leyti.
Áskoranir framundan og næstu skref
Finna þarf leiðir til að nýta þá reynslu sem varð til í hraðlinum til að aðstoða þau sveitarfélög sem eru komin skemmra á veg við innleiðingu á BÞHE. Þar er kostnaður ein helsta áskorunin.
Þróun BÞHE kerfisins til framtíðar gæti falið í sér vigtun íláta og skynjara sem auka skilvirkni og hagkvæmni tæminga. Þróun á stafrænni BÞHE þjónustugátt krefst breytinga á álagningakerfi HMS, sem nú er í endurskoðun. Sveitarfélög eru hvött til að nýta reynslu hvors annars við frekari innleiðingu og þróun á BÞHE lausnum og mun Sambandið halda samstarfinu áfram við HMS og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið til að tryggja að breytingarnar á álagningakerfi HMS þjóni hagsmunum sveitarfélaganna sem best.
Nánar má lesa um árangur BÞHE innleiðingar í skýrslu um BÞHE hraðalinn sem Sambandið skilaði nýlega til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.