Fara í aðalefni

Menntun

Tangi hlýt­ur Orð­spor­ið 2025

7. febrúar 2025

Leikskólinn Tangi á Ísafirði hlýtur Orðsporið 2025 á Degi leikskólans fyrir að vera leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi.


Í ár kemur Orðsporið í hlut leikskólans Tanga, leikskóla fyrir fimm ára börn á Ísafirði sem er leiðandi í útinámi, en verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur og þróun í menntamálum eða í kennsluháttum á leikskólastiginu. 

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, veitti Jónu Lind Kristjánsdóttur, skólastjóra Tanga, viðurkenninguna fyrir hönd aðstandenda Orðsporsins, sem komust ekki vestur vegna veðurofsa.

Vald- og heilsueflandi nám

Í tilnefningu segir um Tanga að hann sé leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi. Þar læri börn um veður, náttúruna og hvernig hægt sé að útbúa sig og takast á við þær mismunandi aðstæður sem útiveran býður upp á hverju sinni.

Valnefnd um Orðsporið 2024 er skipuðu fulltrúum Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, barna- og menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtakanna Heimili og skóli. Gaman er að segja frá því að tæplega 80 tilnefningar bárust valnefnd að þessu sinni, og því ljóst að mikið verkefni beið valnefndarinnar við að velja úr tilnefningum sem allar bera leikskólastarfi fagurt vitni.