Sterk sveitarfélög lykill að góðu samfélagi
30. desember 2024
Tíminn flýtur alltaf áfram og nú líður að því að árið 2024 renni sitt skeið. Það hefur, líkt og mörg önnur undanfarin ár, verið tíðindaríkt hjá sveitarfélögum landsins og fjölmargar áskoranir sem við höfum glímt við á ýmsum vígstöðvum.
Jarðhræringar héldu áfram á Reykjanesi á árinu og höfðu mikil áhrif á sveitarfélagið og íbúa þess. Við hjá Sambandinu höfum eftir fremsta megni stutt við sveitarstjórn Grindavíkur í þeim verkefnum sem hún glímir við, og þessi staða minnir okkur á hversu mikilvæg sterk sveitarfélög eru samfélaginu okkar. Það hefur verið magnað að fylgjast með viðbrögðum samfélagsins í Grindavík og samheldni í þessu stóra verkefni.
Mikið fjárfest og stutt við íbúðauppbyggingu
Mörg sveitarfélög hafa verið í örum vexti undanfarin ár og það er sannarlega áskorun að vaxa hratt í hárri verðbólgu og vöxtum. Þrátt fyrir það jukust fjárfestingar sveitarfélaga á árinu 2023 og námu 76 milljörðum króna eða 14% af tekjum þeirra, en til samanburðar fjárfestir ríkissjóður um 100 milljörðum, eða 7% af sínum tekjum. Það er því ljóst að sveitarfélög um allt land eru að sýna mikinn metnað í uppbyggingu samfélagsins.
Sveitarfélög hafa ekki staðið íbúðauppbyggingu fyrir þrifum, ólíkt því sem stundum er haldið fram. Árið 2024 urðu tæplega 3.600 íbúðir fullbúnar sem verður að teljast góður árangur m.v. afar háan fjármögnunarkostnað og yfirspenntan vinnumarkað undanfarið. Aldrei hafa fleiri íbúðir verið í byggingu eða með samþykkt byggingaráform. Þá er tæpur þriðjungur íbúða í byggingu með stuðningi hins opinbera, ýmist í gegnum stofnframlög og hlutdeildarlán. Húsnæðisstuðningur sveitarfélaga felst einkum í stofnframlögum, sérstökum húsnæðisstuðningi og í niðurgreiddri leigu á félagslegu húsnæði. Þá styðja sveitarfélög við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með margvíslegum innviðaframkvæmdum í þágu íbúa. Enda er það svo að sveitarfélög eiga helming vegakerfisins í landinu og meirihluta opinberra bygginga.
Það er þess vegna sem það hefur verið áherslumál hjá Sambandinu að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts af lögbundnum innviðaframkvæmdum. Innviðafjárfestingar ríkis og sveitarfélaga styðja við framleiðnivöxt og hagvaxtargetu þjóðarbúsins en er gjarnan sá útgjaldaliður þar sem skorið er niður ef þörf þykir. Við þurfum að viðhalda háu fjárfestingarstigi sveitarfélaga og opna ár endurgreiðslur vegna innviðaframkvæmda líkt og raunin er á hinum Norðurlöndunum.
Samhent átak til stuðnings langtímakjarasamninga
Sveitarfélögin tóku þátt í að styðja við gerð langtímakjarasamninga með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hófsömum gjaldskrárhækkunum. Stöðugleikasamningarnir hafa það að markmiði að draga úr verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta hér á landi. Á þeim nótum hefur samninganefnd sveitarfélaga undirritað kjarasamninga við mikinn meirihluta starfsfólks sveitarfélaga. Allt miðar þetta að því að ná hér efnahagslegum stöðugleika, og við erum á réttri leið þar.
Á haustmánuðum boðuðu aðildafélög KÍ til verkfalla þar sem ekki hafði tekist að ná samningnum. Fóru nokkrir leik-, grunn- og framhaldsskólar um allt land í verkföll sem að reyndu mikið á nemendur, kennara, foreldra og sveitarfélögin. Í lok nóvember samþykktu samninganefndir Sambandsins og KÍ innanhústillögu ríkissáttasemjara um ramma fyrir kjarasamninga. Samhliða því frestaði KÍ öllum verkföllum og aðilar sammældust um að halda friðarskyldu út janúar 2025 í þeim tilgangi að ljúka gerð kjarasamnings. Góður gangur er í viðræðunum og full ástæða til bjartsýni um að samningar klárist fljótlega á nýju ári.
Samvinna skilar okkur árangri
Eitt af stóru áherslumálunum Sambandsins er skýr ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í félags- og heilbrigðisþjónustu, og stóru verkefnin okkar undanfarin misseri þar hafa verið kostnaðarskipting í málefnum fatlaðs fólks, og barna með með fjölþættan vanda.
Það er gríðarlega mikilvægt að við vinnum saman að því, ríki og sveitarfélög í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, að þróa þjónustuna áfram og tryggja fjármögnun og fyrirkomulag málaflokksins til framtíðar. Við hjá Sambandinu höfum lagt mikla áherslu á það í samtölum við helstu hagaðila að við þurfum að ná sátt um þessa þætti sem allra fyrst, og höfum sett af stað vinnu til að tryggja að svo verði. Það eru hagsmunir allra að sveitarfélögin hafi bolmagn til að sinna þessari þjónustu eins vel og metnaður þeirra stendur til, með hagsmuni notenda að leiðarljósi.
Sterk sveitarfélög eru grunnur að góðu samfélagi
Við sem störfum á sveitarstjórnarstiginu erum heppin að fá að glíma við ábyrgðarfull og skemmtileg verkefni og að fá tækifæri til að móta samfélagið okkar. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í daglegu lífi okkar allra enda sinna þau stórum hluta opinberrar þjónustu í samfélaginu.
Starfsfólk sveitarfélaga um allt land mun halda áfram að vinna margvíslegum verkefnum sem bæta samfélagið okkar á nýju ári. Við hjá Sambandinu verðum sem fyrr á vaktinni fyrir sveitarfélögin og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.
Ég óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.
Með áramótakveðjum,
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2024.