Fara í aðalefni

Kjaramál

Nýr kjara­samn­ing­ur við KÍ und­ir­rit­að­ur

26. febrúar 2025

Í gærkvöldi undirrituðu samninganefndir sveitarfélaga, ríkis og Kennarasambands Íslands nýjan kjarasamning samkvæmt innanhússtillögu ríkissáttasemjara.

Kjarasamnningurinn byggir í meginatriðum á því sem aðilar hafa fjallað um í samningaviðræðum sínum hingað til. Ný tillaga varðandi forsenduákvæði var hins vegar lögð fram í gær, svokölluð forsendunefnd, sem hjálpar til við að greiða úr deilum sem geta komið upp og minnkað verulega líkurnar á því að samningum verði sagt upp. Var það til þess að aðilar náðu saman.

Kjarasamningur þessi er gerður á grundvelli kjarasamninga sem undirritaðir voru á almennum vinnumarkaði vorið 2024 sem og kjarasamningum sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði.

Með samningnum hafa aðilarnir ákveðið að feta í sameiningu svokallaða virðismatsvegferð sem skiptist í tvo meginþætti.

Annars vegar er um að ræða gerð virðismatskerfis sem ætlað er að skapa forsendur fyrir hlutlægu og málefnalegu mati á virði starfa kennara og sátt um val á viðmiðunarstéttum sem er skilyrði þess að unnt sé að ná því sameiginlega markmiði samningsaðila að jafna laun, vinnufyrirkomulag og kjör kennara við aðra sérfræðinga sem starfa á opinberum og almennum vinnumarkaði.

Hins vegar er verkáætlun sem hefur það markmið að greina og breyta launamyndunarkerfinu sem gilt hefur um störf kennara, auka vægi grunnlauna sem hlutfall af heildarlaunum þeirra og gera vinnutíma og vinnuumhverfi kennara sem best sambærilegt við það sem gildir um viðmiðunarstéttir, innan þeirra marka sem við á. Hluti verkáætlunar er innleiðing betri vinnutíma kennara en samið var um betri vinnutíma flestra annarra stétta opinberra starfsmanna á vordögum 2019 og tímabundin ákvæði þeirra samninga færð í miðlægan kjarasamning vorið 2024.

Samningsaðilar eru sammála um að til að ná markmiðum samningsins þurfi að gera grundvallarbreytingar á vinnutíma og launamyndunarkerfi kennara. Markmið breytinganna er að styrkja stöðu skólakerfisins og gera það betur í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir og tryggja um leið þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er til að unnt sé að skipuleggja störf í skólum þannig að hæfi þörfum starfseminnar og stuðli að betri árangri og bættri líðan nemenda. Um leið á að bæta starfsaðstöðu kennara og auka möguleika þeirra á að samþætta vinnu og einkalíf. Breytingunum er einnig ætlað að auka stöðugleika í mönnun í menntakerfinu, að draga úr yfirvinnu, að bæta þjónustu við almenning og gera störf kennara eftirsóknarverð.