Í innanhússtillögu ríkissáttasemjara sem kennarar höfnuðu 1. febrúar fólust umtalsverðar kjarabætur fyrir kennara. Þær voru umfram launahækkanir stöðugleikasamninganna á almennum vinnumarkaði sem hafa verið leiðarljós allra kjarasamninga á opinberum markaði.
Launahækkanir umfram þegar gerða samninga skýrast af innborgun á fyrirhugaða virðismatsvegferð kennara grundvallaða á bráðabirgðamati. Aðrir viðsemjendur eru nú þegar aðilar að virðismati en það stuðlar að málefnalegri, hlutlægri og samræmdri launasetningu starfa hjá sveitarfélögum.
Með virðismati má uppræta kerfislægan og ómálefnalegan launamun á milli markaða sem er meginmarkmið samkomulagsins frá 2016 um jöfnun lífeyrisréttinda starfsfólks á almennum og opinberum markaði og er meginkrafa Kennarasambandsins í þessari kjaralotu. Til viðbótar átti aðkoma menntamálayfirvalda að kjarasamningunum að vera umtalsverð og veita kennurum aukinn faglegan stuðning og bæta starfsumhverfi þeirra.
Mynd 1: Inntak innanhússtillögu ríkissáttasemjara
Í innanhússtillögu ríkissáttasemjara hefðu laun kennara hækkað að lágmarki um 22% á kjarasamningstímabilinu en því til viðbótar hefði getað komið til frekari launahækkana vegna launaþróunartryggingar og endanlegs virðismats á störfum kennara. Til samanburðar nema launahækkanir sem samið var um á almennum vinnumarkaði í upphafi árs 2024 ríflega 14% á kjarasamningstímabilinu.