Fara í aðalefni

Á árinu 2022 voru gerðar grundvallarbreytingar á uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga. Barnaverndarnefndir voru lagðar niður og meginábyrgð daglegra verkefna falin barnaverndarþjónustu.  

Barnaverndarþjónusta 

Barnaverndarþjónusta sinnir daglegum verkefnum barnaverndar.  Hún ber ábyrgð á framkvæmd þjónustu þ.m.t. rekstri barnaverndarúrræða og töku ákvarðana sem tengjast barnaverndarmálum og eru ekki falin öðrum líkt og umdæmisráði.    

Í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu skulu vera í það minnsta 6.000 íbúar.  Sveitarfélög sem ekki ná samþykktum íbúafjölda gera samning sín á milli um sameiginlega barnaverndarþjónustu eða sækja um undanþágu t.d. á grundvelli landfræðilegra ástæðna.  

Á vef Barna- og fjölskyldustofu  https://island.is/s/bofs/barnavernd-eftir-sveitarfeloegum er að finna lista yir sveitarfélög til að sjá hvaða barnaverndarþjónustu þau tilheyra. 

Umdæmisráð 

Umdæmisráð barnaverndar eru sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum á vettvangi sveitarfélaga.  

Umdæmisráðin eru skipuð þremur ráðsmönnum, lögfræðingi sem jafnframt er formaður ráðsins, sálfræðingi og félagsráðgjafa. Skipunartími ráðsins er til fimm ára.    

Hlutverk umdæmisráða er að taka fyrir barnaverndarmál sem barnaverndarþjónusta sveitarfélaga vísar til þeirra, þ.e. þegar taka þarf íþyngjandi ákvarðanir með úrskurði og samþykki liggur ekki fyrir.  

Umdæmisráð barnaverndar eru eftirfarandi: 

Umdæmisráð Reykjavíkur 

  • Reykjavíkurborg 

Umdæmisráð i Kraganum 

  • Kópavogur,
  • Garðabær,
  • Hafnarfjörður,
  • Mosfellsbær,
  • Kjósahreppur,
  • Seltjarnarnes. 

Umdæmisráð Reykjaness og huta Suðurlands 

  • Reykjanesbær,
  • Suðurnesjabær,
  • Vogar og
  • Grindavík. 
  • Árborg,
  • Ásahreppur,
  • Mýrdalshreppur,
  • Rangárþing eystra,
  • Rangárþing ytra og
  • Skaftárhreppur. 

Umdæmisráð landsbyggðarinnar 

  • Öll önnur sveitarfélög  

Samspil barnaverndarþjónustu og samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Aðkoma barnaverndarþjónustu að samþættingu er mismunandi eftir því á hvaða stigi barnaverndarmálið er.  Meðan mál er í könnun hjá barnaverndarþjónustu er gert ráð fyrir að hún taki þátt í samþættingu þjónustu í þágu barnsins.  Ef ástæða er til að grípa til úrræða á grundvelli barnaverndarlaga tekur barnaverndarþjónusta yfir málstjórn og leiðir teymisvinnu með þeim sem veita barninu þjónustu.  

Í þeim tilvikum þar sem ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu er gert ráð fyrir að barnaverndarþjónusta veiti með virkum hætti leiðbeiningar um samþættingu þjónustu og leitist við að koma á samvinnu við foreldra um þjónustu í þágu barnsins.  Ef barnaverndarþjónusta, með aðkomu umdæmisráðs barnaverndar, telur þörf á úrræðum samþættingar er veitt sérstök heimild til að úrskurða um að samþætt þjónusta í þágu barnsins  verði komið á.   

Mikilvægir vefir: