Fara í aðalefni

Umhverfis Ísland

Um­hverf­is­ár­ið 2024: ár­ang­ur Sam­bands­ins í um­hverf­is­mál­um

17. febrúar 2025

Skýrslu um umhverfisverkefni Sambandsins árið 2024 hefur nú verið skilað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í takt við samstarfssamning aðila. Ljóst er að umhverfis- og innviðateymi Sambandsins hafði í ýmsu að snúast á liðnu ári eins og samantektin hér að neðan ber með sér.

Skýrslu um umhverfisverkefni Sambandsins árið 2024 hefur nú verið skilað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í takt við samstarfssamning aðila. Ljóst er að umhverfis- og innviðateymi Sambandsins hafði í ýmsu að snúast á liðnu ári eins og samantektin hér að neðan ber með sér.

Úrgangsmál

Ráðist var í greiningu á kostnað sveitarfélaga við meðhöndlun úrgangs og kom í ljós að kostnaðurinn hefur aukist jafnt og þétt en honum hefur ekki verið mætt með auknum tekjum. Nokkur verkefni hafa verið sett af stað í kjölfar greiningarinnar, s.s. endurskoðun á bókhaldslyklum varðandi úrgangsmál.

Unnið var að endurskoðun á Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga og er lokaafurð þeirrar vinnu væntanleg á næstu vikum.

Hraðall um innleiðingu Borgað þegar hent er kerfis var kláraður þar sem 37 sveitarfélög tóku þátt undanfarin tvö ár. Niðurstöður hraðalsins voru teknar saman og verður unnið verður áfram að næstu skrefum þessarar innleiðingar.

Umfangsmikil könnun á stöðu úrgangsmála hjá sveitarfélögum var send út og niðurstöður hennar munu reynast mjög dýrmætar til að auka getu Sambandsins til að veita sterkt aðhald gagnvart löggjafanum og betri þjónustu og ráðgjöf til sveitarfélaga.

Loftslagsmál

Unnin var greining á uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá sjónarhorni sveitarfélaganna og skrifuð skýr og ítarleg umsögn út frá greiningunni. Umsögninni hefur svo verið fylgt eftir á fundum Verkefnastjórnar loftslagsaðgerða sem Sambandið á sæti í.

Aðlögun að loftslagsbreytingum var að finna í mörgum verkefnum á árinu en þó helst í gegn um undirbúningsvinnu vegna umsóknar um styrk til LIFE áætlunarinnar vegna innleiðingar á aðlögunaráætlun Íslands. Umsóknin er unnin í samstarfi við fjölda ráðuneyta og stofnana og ekki síst sveitarfélög. Litið er sérstaklega til vinnu vegna aðgerðar C.10 í Byggðaáætlun þar sem unnið var áhættu- og viðkvæmnimat fyrir fimm ólík sveitarfélög. Út frá því mati urðu til hugmyndir að aðgerðum sem nú er leitað leiða við að koma í framkvæmd.

Kraftur var settur á ný í að lagfæra og uppfæra verkfærakistu Loftslagsvænni sveitarfélaga ásamt því að undirbúa mikla aukningu á þjónustu og stuðning við sveitarfélögin við gerð loftslagsstefna. Sambandið tók að sér leiðandi hlutverk í verkefninu og ný ritstjórn var mynduð með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Umhverfis- og orkustofnun og Veðurstofu Íslands.

Sambandið sinnir hlutverki landstengiliðs fyrir verkefnið European City Facility sem snerist um að sveitarfélög gátu sótt um styrki og faglegan stuðning til að útbúa fjárfestingaráætlun vegna orkuskiptaverkefna. Tvö íslensk sveitarfélög, Múlaþing og Akureyri, hlutu styrk upp á 9 milljónir króna hvort um sig.

Náttúruvernd

Sambandið átti fulltrúa í starfshópi sem vann úttekt á starfsemi og framtíðarfyrirkomulagi náttúrustofa. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar fyrir stjórnarformönnum náttúrustofa og framkvæmdastjórum viðeigandi sveitarfélaga.

Einnig kom Sambandið að skipulagningu ársfundar náttúruverndarnefnda sveitarfélaga, náttúrustofa og Umhverfisstofnunar.

Vatna- og fráveitumál

Stærstu tíðindi í vatna- og fráveitumálum eru auðvitað þau að 3,5 milljarða króna styrkur hlaust frá Umhverfis- og loftslagsáætlun ESB (LIFE) til að innleiða vatnaáætlun Íslands og vatnatilskipun ESB. Verkefnið heitir ICEWATER og er Sambandið meðal 23 samstarfsaðila og tók virkan þátt í umsóknaferlinu. Átta sveitarfélög eru beinir aðilar að verkefninu en vinna í tengslum við það mun nýtast öllum sveitarfélögum landsins með beinum og óbeinum hætti.

Sambandið sinnti virkri hagsmunagæslu varðandi fráveitutilskipun ESB með umsögnum og fundum bæði hér heima og í gegnum Evrópuskrifstofu Sambandsins.

Sjóðasókn

Unnið var að fjölda umsókna í evrópska sjóði á sviði loftslagsmála og hringrásahagkerfis. Sambandið hlaut, ásamt samstarfsaðilum sínum, þrenns konar styrki. Fyrstan má nefna styrkinn fyrir ICEWATER verkefninu. Auk hans er Sambandið aðili að tveim undirbúningsverkefnum sem miða að skilum á stórum umsóknum, annars vegar á sviði aðlögunar að loftslagsaðgerðum og hins vegar vegna innleiðingar á hringrásarhagkerfinu. Einnig má nefna að Sambandið fékk, sem aðili að leiðangri Horizon Europe um aðlögun að loftslagsbreytingum, sérfræðistuðning til aðstoðar sveitarfélaga vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Umsagnir og minnisblöð

Sambandið sendi inn 13 umsagnir á sviði umhverfismála til stjórnvalda á liðnu ári og voru birt 5 opinber umhverfistengd minnisblöð. Hægt er að nálgast umfjöllun um umsagnirnar og minnisblöðin í ársskýrslunni.

Helstu markmið ársins 2025

Helstu markmið umhverfis- og innviðateymis Sambandsins á árinu 2025 eru:

  • Að sveitarfélögin verði leiðandi þátttakendur í loftslagsumræðu og -aðgerðum. Áfangamarkmið er að styðja enn þéttar við sveitarfélögin við að setja sér aðgerðamiðaðar loftslagsstefnur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga. 
  • Að efla sveitarstjórnarstigið enn frekar við að koma á virku hringrásarhagkerfi, draga úr kostnaði við úrgangsstjórnun og styðja sveitarfélög við úrgangsstjórnun sem miðar að lágmörkun úrgangs, aukinni endurnotkun og endurvinnslu og annarri endurnýtingu með góðri og hagkvæmri þjónustu við íbúa og atvinnulíf að leiðarljósi. 
  • Að greiða fyrir samstarfi sveitarfélaga við ríkisstofnanir og einkaaðila vegna verkefna sem snúast um umhverfis- og loftslagsmál og sókn í evrópska sjóði vegna þeirra.  
  • Að beita sér fyrir hagsmunum sveitarfélaga í tengslum við skipulags- og húsnæðismál með áherslu á vistvæna mannvirkjagerð, fráveitumál, að tekjur af skipulagsgjaldi renni að fullu til sveitarfélaga, og að vakta umræðu og áform um þjóðgarða og friðlýsingar.