Stafræn vegferð
Skrifa undir samning um endurhönnun á upplýsingaveitu sveitarfélaga
3. apríl 2025
Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ása Rún Björnsdóttir, rekstrarstjóri Gangverks, skrifuðu í dag undir samning um endurhönnun á upplýsingaveitu sveitarfélaga.

Samkvæmt samningnum mun Gangverk stýra þróunarvinnu við endurhönnun upplýsingaveitunnar með það að leiðarljósi að auðvelda sveitarfélögum að standa skil á fjárhagsupplýsingum sínum og nýtingu þeirra við ákvarðanatöku.
Upplýsingaveita sveitarfélaga er í dag hýst hjá Hagstofu Íslands. Í kjölfar endurhönnunar mun Sambandið taka yfir gagnasöfnun á fjárhagsupplýsingum sveitarfélaga frá Hagstofunni. Markmiðið með nýrri upplýsingaveitu er að styðja frekar við fjárhagsleg markmið sveitarfélaga og auðvelda þeim að skila inn gagnlegum upplýsingum. Um er að ræða upplýsingar um rekstur og fjárhag sveitarfélaga í samræmi við kröfur um færslu, framsetningu og skil á bókhaldi, fjárhagsáætlunum og ársreikningum sveitarfélaga.
Þá er nýrri upplýsingaveitu ætlað auka sjálfvirkni í skilum, bæta gæði fjárhagsupplýsinga og samanburðarhæfni þeirra. Einnig stefnt að auka skilatíðni og bæta endurgjöf til sveitarfélaga. Sambandið vill með þessu verkefni styðja enn frekar við sveitarfélögin til að tryggja sjálfbærni í rekstri og ábyrgri stýringu fjármála.
Gangverk er íslenskt hugbúnaðarhús sem leggur áherslu á nýsköpun, gæði og lausnir sem hjálpa viðskiptavinum þess að ná árangri á stafrænum vettvangi. Gangverk smíðar notendavænar og öflugar stafrænar lausnir fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina um allan heim. Hjá Gangverk starfa um 200 starfsmenn viðsvegar um heiminn og hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegra viðurkenninga fyrir framúrskarandi starf.