Sambandið
Ósk um árangursríkt samstarf sveitarfélaga við ríki og Alþingi
3. desember 2024
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent öllum nýkjörnum alþingismönnum bréf þar sem farið er yfir samskipti Sambandsins við Alþingi og ríkisstjórn.
Í bréfinu er rakið að Sambandið er lögformlegur samskiptaaðlili við ríki og Alþingi um málefni er varða sveitarstjórnarstigið. Samskipti Alþingis og ríkisstjórnar við Sambandið og sveitarfélögin eru ekki af sama meiði og samskipti við almenna hagsmunaaðila. Tengslin við sveitarfélögin eru mun sterkari en við slíka aðila, enda veita ríki og sveitarfélög sameiginlega opinbera þjónustu á Íslandi. Því er mikilvægt að rækta og styrkja þessi tengsl og að þessi tvö stjórnsýslustig séu samstíga við þróun og veitingu opinberrar þjónustu sem stenst gæðasamanburð við það besta sem gerist í nágrannalöndum okkar.
Sambandið væntir þess að eiga góð samskipti við alla alþingismenn og er reiðubúið að veita þeim allar þær upplýsingar sem það býr yfir, eða hefur tök á að afla, um stöðu og starfsemi sveitarfélaganna í landinu.
Að lokum óskar Samband íslenskra sveitarfélaga öllum nýkjörnum Alþingismönnum til hamingju með kjörið og óskar þeim velfarnaðar í mikilvægu hlutverki á kjörtímabilinu.