Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Hringrásarhagkerfið og mannréttindi
4. nóvember 2024
Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins var haldið í Strassborg dagana 15.-17. október 2024. Þingið er eina stofnun sinnar tegundar í Evrópu sem hefur það hlutverk að fylgjast með og efla þróun lýðræðis í sveitarfélögum og héruðum í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
Meðal þess sem þingið fjallaði um var innrás Rússland í Úkraínu, hnignun lýðræðis í Georgíu og afleiðingar hatursumræðu og falsfrétta á lýðræðisþróun. En það fjallaði einnig um mikilvægi þess að Hringrásarhagkerfið sé haft að leiðarljósi í allri áætlanagerð evrópskra sveitarfélaga.
Þingið fjallaði hins vegar ekki um Hringrásarhagkerfið sem hefðbundið umhverfismál. Umfjöllunin snerist þess í stað um rétt íbúa á því að búa í heilbrigðu umhverfi. Rétt íbúa á aðgangi að heilnæmu vatni. Rétt íbúa á aðgangi að fráveitu og að þurfa ekki að lifa við skelflegar afleiðingar flóða eða þurrka. Í þessu tilliti vísaði þingið í Heimsmarkmið 1, 3, 6, 11, 12 13, 14 og 16.
Hringrásarhagkerfið - í umfjöllum Sveitarstjórnarþingsins - snerist með öðrum orðum um mannréttindi íbúa Evrópu.
Sveitarstjórnarþingið er ekki eitt um það að tengja umhverfismál við mannréttindi. Nýverið úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu að svissnesk stjórnvöld hefðu brotið mannréttindi 2.000 svissneskra kvenna sem höfðuðu mál gegn stjórnvöldum í Sviss vegna aðgerðaleysis þeirra í loftslagsmálum.
Sveitarfélög á Íslandi gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu Hringrásarhagkerfis hér á landi. Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Umfangsmiklar breytingar urðu á lögunum í júní 2021, ásamt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald.
Hvort framkvæmd þessara laga fer fram undir hatti umhverfismála eða mannréttinda er kannski ekki aðkallandi umræða á Íslandi. Hins vegar er ljóst að snúa þarf af núverandi braut og skapa skilyrði fyrir öflug Hringrásarhagkerfi. Og þar fara sveitarfélögin með stórt hlutverk.
Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er skipað kjörnum fulltrúum af sveitarstjórnarstigi í öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Ísland á þrjá fulltrúa á þinginu sem eru tilnefndir af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúar Íslands eru: Heiða Björg Hilmisdóttir, Reykjavíkurborg; Hildur Björnsdóttir, Reykjavíkurborg og Walter Fannar Kristjánsson, Flóahreppi.