Málefni eldra fólks
Málefni eldra fólks
Þjónusta við elra fólk hefur ýmsa snertifleti við starfsemi sveitarfélaga og þarf bæði að horfa til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fjallað er m.a. um stuðningsþjónustu, en ekki síður til laga um málefni aldraðra. Hér að neðan má finna markmið laga um málefni aldraðra en markmið nr. 2 má einnig finna í X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
- Að aldrað fólk eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem það þarf og á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða.
- Að aldrað fólk geti búið við eðlilegt heimilislíf eins lengi og unnt er en jafnframt tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar þörf er á.
- Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldrað fólk njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.
Verkaskipting í þjónustu við eldra fólk
Málefni aldraðra snýr bæði að félagslegri þjónustu en ekki síður heilbrigðisþjónustu. Ábyrgð á lagasetningu, reglugerðum og stefnumótun hvílir þannig bæði á Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem og heilbrigðisráðuneyti.
Hér fyrir neðan er yfirlit er sýnir núgildandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna öldrunarþjónustu. Af henni leiðir að nær öll nærþjónusta við eldra fólk er veitt af sveitarfélögum eða sjálfstæðum rekstraraðilum. Undantekning frá þessu er hjúkrunarþjónusta á sjúkrahúsum og heimahjúkrun sem er á hendi ríkisins þó nokkur stærri sveitarfélög séu farin að samþætta þá þjónustu við sína.
Þjónustukeðja
Þjónusta við eldra fólk myndar þjónustukeðju. Almennustu aðgerðirnar eða úrræðin eru neðst í keðjunni sem öll geta nýtt sér, en eftir því sem stuðningsþörf eykst taka við sértækari og þyngri úrræði. Hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga er fyrirferðarmest í almennu aðgerðunum. Hér má t.d. horfa til lýðheilsu og almennrar heilsueflingar. Í því samhengi má nefna að flest sveitarfélög eru þátttakendur í verkefninu „Heilsueflandi samfélag” sem Embætti landlæknis stýrir.
Gott að eldast
Sveitarfélögin taka virkan þátt í aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk 2024-2028.
Til nánari upplýsinga er bent er á vef Gott að eldast sem settur var upp af stjórnvöldum
Öldungaráð
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 m.s.br. er kveðið á um skipan öldungaráðs sveitarfélaga. Þessu ráði er ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagsins.
Skipan öldungaráðs og fjöldi fulltrúa
Skipa skal öldungaráð að hverjum sveitarstjórnarkosningum loknum. Í því sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn, þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara og einn fulltrúi frá heilsugæslunni. Ef tvö eða fleiri sveitarfélög eiga samstarf um öldrunarþjónustu, koma þau sér saman um samsetningu öldungaráðs. Sveitarstjórnir hafa því í hendi sér þann fjölda fulltrúa sem skipar ráðið hverju sinni umfram lögbundið lágmark. Sveitarfélögum ber að skipa öldungaráð skv. lögum en þau geta ákveðið í sínum samþykktum hvort þau hafi stöðu fastanefndar eða er talið upp með öðrum nefndum sem sveitarstjórn kýs fulltrúa í. Mælt er með því öldungaráð setji sér starfsreglur sem kveða á um kjör og skyldur fulltrúa í ráðinu, undirbúning funda o.s.frv. svo að starfsemi ráðsins sé í föstum skorðum. Þegar starfsreglum sleppir gilda reglur um fundarsköp sbr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga.
Þann 17. október 2024 hélt Samandið í samstarfi við Landssamtök eldri borgara málþing um starf ölldungaráða sveitarfélaganna hér er tengill á upptöku frá málþinginu.