Fara í aðalefni
Fjármálaráðstefna

Sterk sveit­ar­fé­lög lyk­ill að góðu sam­fé­lagi

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst í morgun, en hún fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag og á morgun. Á ráðstefnunni eru fjármál og helstu verkefni sveitarfélaga í brennidepli. Markmiðið með ráðstefnunni er að veita sveitarstjórnarfólki yfirlit yfir efnahag og forsendur næsta árs, sem gagnast þeim við gerð fjárhagsáætlana. 

Heiða Björg Hilmisdóttir flytur setningarávarp á fjármálaráðstefnu 2024
Heiða Björg Hilmisdóttir flytur setningarávarp á fjármálaráðstefnu 2024

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti ráðstefnuna og fór yfir áskoranir í rekstri sveitarfélaga. Sagði hún að hallarekstur sveitarfélaga hefði verið raunin meira og minna frá 1998 og aukist undanfarin ár, sem væri áhyggjuefni. Hins vegar sjáist skýr merki um árangur í rekstri sveitarfélaga árið 2023, og vísbendingar eru um að það haldi áfram á næstu árum. Fjárfestingar sveitarfélaga hefðu aukist í krefjandi umhverfi en mikilvægt væri að halda áfram að fjárfesta í innviðum.  

„Sveitarfélögin eiga og reka gífurlegt magn af innviðum í íslensku samfélagi. Fjárfestingar í innviðum hafa ekki ennþá náð sama krafti og fyrir hrun. Töluverð innviðaskuld hefur safnast upp í íslensku samfélagi – og það verður áskorun að vinna þá skuld upp. Mörg sveitarfélög hafa verið í örum vexti undanfarin ár og það er sannarlega áskorun að vaxa hratt í hárri verðbólgu og vöxtum og þegar ekki er mikill afgangur af rekstrinum. Þrátt fyrir það jukust fjárfestingar sveitarfélaga á árinu 2023 og námu 76 milljörðum króna eða 14% af tekjum þeirra en til samanburðar fjárfestir ríkissjóður um 100 milljörðum, eða 7% af sínum tekjum,“ sagði Heiða Björg meðal annars í ávarpi sínu. Þá sagði hún margt spennandi í gangi hjá sveitarfélögum um allt land og að sterk sveitarfélög væru lykill að góðu samfélagi.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra ávarpa einnig ráðstefnuna. Þá er fjöldi annarra áhugaverðra erinda á dagskrá þar sem áherslan er á afkomu sveitarfélaga og horfur til næstu ára. Ráðstefnunni er streymt beint á vef sambandsins og hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar.

Fjármálaráðstefnunni lýkur svo á tveimur málstofum, sem fram fara fyrir hádegi á morgun, föstudag. Á annarri málstofunni verður áherslan á fjármál, rekstur og stafræn verkefni, en hin málstofan um umhverfið, menntun og velferð. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga er fjölmennasti viðburður ársins hjá sveitarstjórnarmönnum, en þátttakendur í ár eru tæplega 500 talsins.

Fjármálaráðstefnan er mjög vel sótt og er bekkurinn ansi þétt setinn.
Fjármálaráðstefnan er mjög vel sótt og er bekkurinn ansi þétt setinn.