Umhverfis Ísland
Staða úrgangsmála hjá sveitarfélögum
10. apríl 2025
Umhverfis- og innviðateymi Sambandsins sendi nýlega út könnun til að kanna stöðu úrgangsmála hjá sveitarfélögunum og liggja niðurstöðurnar nú fyrir.

Umhverfis- og innviðateymi Sambandsins sendi út könnun á alla framkvæmdastjóra sveitarfélaganna þann 13. desember 2024 til að kanna stöðu úrgangsmála hjá sveitarfélögum. Könnunin innihélt 29 spurningar, svarfrestur var gefinn til 9. janúar 2025 og bárust alls 35 svör. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru teknar saman hér að neðan en einnig var unnin ítarlegri samantekt á niðurstöðunum.
Tekið skal fram að þegar orðalagið ,,í flestum tilvikum‘‘ eða ,,flest sveitarfélög‘‘ eða annað sambærilegt er notað er átt við um þau sveitarfélög sem svöruðu könnuninni. Gera má ráð fyrir að einhver samsvörun sé á milli þeirra niðurstaðna sem teknar eru saman hér og þeirra aðstæðna sem eru í sveitarfélögum sem ekki svöruðu könnuninni, en erfitt er að segja til um nákvæmlega hversu vel er hægt að yfirfæra niðurstöðurnar á öll sveitarfélög landsins.
Stjórnsýsla úrgangsmála
- Í langflestum tilvikum (57%) er einungis hluti úr starfsgildi hjá sveitarfélögum sem tengist úrgangsmálum, næstalgengast er að eitt starfsgildi tengist úrgangsmálum (17%), og í 11% tilvika ber enginn starfsmaður ábyrgð á úrgangsmálum.
- 68% sveitarfélaga telja líklegt að aukin samvinna um úrgangsþjónustu við nágrannasveitarfélög skapi aukna hagræðingu í málaflokknum.
- 46% sveitarfélaga lýsa jákvæðri reynslu af þjónustu og samskiptum við rekstraraðila sem sjá um allan eða einhvern hluta af sorphirðu og -meðhöndlun f.h. sveitarfélagsins.
- Ítrekaðir vankantar á reikningagerð, innheimtu og tölfræðisamantektum um magn og samsetningu úrgangs eru þau atriði sem helst eru nefnd sem áskoranir sem þarfnast úrlausnar.
Söfnun úrgangs
- Lífúrgangi er safnað í sér ílát við heimili í 77% tilfella í þéttbýli og 69% tilfella í dreifbýli en 14% sveitarfélaga hafa ekki hafið söfnun á lífúrgangi.
- 14% sveitarfélaga hafa enga aðkomu að söfnun textíls og í 11% sveitarfélaga er söfnun á textíl ekki hafin.
Borgað þegar hent er
- Í 34% sveitarfélaga er í gildi svæðisáætlun sem tekur ekki mið af BÞHE, í 37% sveitarfélaga er í gildi samþykkt sem tekur mið af ÞBHE, og í 57% sveitarfélaga er í gildi gjaldskrá sem tekur mið af BÞHE.
- 17% sveitarfélaga hyggjast ekki innleiða BÞHE við heimili og 57% sveitarfélaga hyggjast ekki innleiða BÞHE kerfi á grenndarstöðvum - notast verður áfram við fast gjald.
- Sú hindrun sem helst var nefnd í tengslum við innleiðingu á BÞHE eru auknar tæknilegar og fjárhagslegar áskoranir við að færa sig úr því að miða gjald við rúmmál og yfir í að miða það við vigt, sér í lagi þegar kemur að sorphirðu við húsvegg.
Helstu áskoranir sveitarfélaga í úrgangsmálum
- 40% sveitarfélaga nefna mikinn og hækkandi kostnað sem stóra áskorun í úrgangsmálum.
- 26% sveitarfélaga nefna ósætti eða slæma umgengni íbúa sem áskorun í úrgangsmálum.
- 14% sveitarfélaga nefna fjölda ferða og vegalengdir sem sorphirðubílar þurfa að fara sem áskorun.
- 11% sveitarfélaga nefna upplýsingaóreiðu, skort á fræðslu og óskýrt regluverk sem áskorun í úrgangsmálum.
Niðurstöður könnunarinnar eru þegar farnar að nýtast umhverfis- og innviðateyminu við að bæta þjónustu sína við sveitarfélögin og sinna markvissari hagsmunagæslu í úrgangsmálum gagnvart löggjafavaldinu. Einnig eru niðurstöðurnar farnar að nýtast í undirbúningi á umfangsmikilli evrópustyrkumsókn um innleiðingu á hringrásarhagkerfinu á Íslandi sem Sambandið kemur að í samstarfi við fjölda stofnana og annarra hagaðila.