Umhverfis Ísland

Sam­ráðs­fund­ur um stefnu­mót­un í mála­flokki líf­fræði­legr­ar fjöl­breytni

8. apríl 2025

Þann 25. mars var fulltrúum sveitarfélaganna boðið á sérstakan samráðsfund til að ræða líffræðilega fjölbreytni á Íslandi og stefnumótun innan málaflokksins. Fundurinn var haldin af Sambandinu og stýrihópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um gerð stefnu um líffræðilega fjölbreytni. 

Fundurinn var haldin á Teams og mæting var góð en rúmlega 50 fulltrúar sveitarfélaga sátu fundinn. Jóhann Páll Jóhannsson,  umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði fundinn með ávarpi og tók Snorri Sigurðsson, formaður stýrihópsins, síðan til máls þar sem hann sagði frá vinnu hópsins. 

Fundargestum var skipt í hópa og fram fóru tvær umræðulotur þar sem umræðuefnin voru annars vegar Landnotkun og skipulag í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og hins vegar Náttúruvernd og endurheimt - hlutverk sveitarfélaganna. Tilgangur fundarins var að fá fram sjónarmið starfsmanna og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga og að eiga samtal um hlutverk sveitarfélaga þegar kemur að málefni líffræðilegrar fjölbreytni. 

Stýrihópur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hefur það hlutverk að undirbúa stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Hópurinn vinnur nú að gerð hvítbókar og hefur hafið samráðsferli við lykilaðila.  Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stýrihópnum er Guðrún Anna Finnbogadóttir.  

Sambandið hvetur sveitarfélögin til að fylgjast með samráðsfundum stýrihópsins sem eru fram undan.