Stafræn vegferð
Gervigreind skapar ný tækifæri fyrir sveitarfélög
14. apríl 2025
Gervigreind (AI) er ekki lengur hugtak úr framtíðarsögum – hún er orðin hluti af daglegu lífi og vinnuferlum víða um heim, og ekki síður hjá íslenskum sveitarfélögum. Fjöldi opinberra aðila, bæði hérlendis og erlendis, vinnur nú markvisst að því að nýta krafta gervigreindar til að bæta þjónustu, hagræða rekstri og stuðla að nýsköpun.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að því að efla þekkingu og meðvitund sveitarfélaga um tækifærin sem gervigreind býður upp á. Í því skyni hafa verið unnin tvö skjöl sem veita sveitarfélögum bæði innsýn í þróun mála og hagnýtar leiðbeiningar um notkun AI. Annars vegar er yfirlit yfir stöðuna og framtíðarmöguleika sveitarfélaga í tengslum við gervigreind og hins vegar stutt samantekt um hvað þarf að hafa í huga þegar slík tækni er tekin í notkun.
Rétt notkun gervigreindar getur létt álagi af starfsfólki, aukið skilvirkni og bætt þjónustu við íbúa. Á sama tíma þarf að huga vel að ábyrgri notkun, gagnavernd, öryggi og siðferðilegum þáttum. Með markvissum skrefum geta sveitarfélög verið í fararbroddi í að nýta tækni framtíðarinnar á ábyrgðarfullan og samfélagslega gagnlegan hátt.
Gögnin sem Sambandið hefur tekið saman og sveitarfélögin geta nýtt sér má finna hér.