Evrópusamvinna
Samstarf evrópskra borga, bæja og sveitarfélaga aldrei mikilvægara en á tímum óvissu og átaka
11. desember 2024
Leiðtogar borga, bæja og sveitarfélaga í Evrópu komu saman í Karlsruhe 9.-10. desember 2024. Á fundinum var fjallað um ástand mála í Evrópu og mikilvægi vinabæjarsamstarfs á tímum óvissu og átaka í álfunni.
Meðal þátttakenda á fundinum voru borgar-, bæjar- og sveitarstjórar frá Úkraínu. Þeirra ákall um samstarf fjallaði ekki einungis um hernaðaraðstoð. Samhliða stríðsreksri þarf einnig að halda samfélögum gangandi, halda við og endurbyggja innviði, reka skóla og velferðarþjónustu, sem eru allt verkefni sveitarfélaga
Í þessu samhengi er vert að nefna samstarf Reykjavíkurborgar og Lviv í Úkraínu.
Lviv er borg í vesturhluta Úkraínu. Fyrir innrás Rússa bjuggu þar um 700 þúsund íbúar en á fyrstu mánuðum stríðsins leituðu allt að tvær milljónir sér skjóls þar. Borgaryfirvöld Lviv hafa ekki einungis þurft að útvega húsnæði fyrir allan þennan fjölda, þau hafa jafnframt unnið að því að setja upp endurhæfingastöðina Unbroken fyrir þá sem hafa slasast illa í stríðinu.
Af þeim sökum er samstarf Reykjavíkurborgar og Lviv ekki einungis hefðbundið vinabæjarsamstarf. Við undirritun samstarfsamnings Reykjavíkurborgar og Lviv var einnig undirritaður samstarfssamningur Unbroken og stoðtækjafyrirtækisins Össurar.
Í Úkraínu er mikil og vaxandi þörf fyrir stoðtækjalausnir og klíníska sérfræðinga þar sem fjöldi aflimaðra hermanna og almennra borgara eykst dag frá degi sökum yfirstandandi stríðs.
Frá því að samstarf Reykjavíkurborgar, Össurar og Lviv hófst hefur Össur þjálfað yfir hundrað heilbrigðisstarfsmenn og útvegað þúsundum úkranískra hermanna og almennra borgara stoðtæki.
Þá hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tekið þátt í þjálfun úrkraínskra hermanna í að veita fyrstu viðbrögð til að vernda líf og heilsu almennra borgara. Loks má nefna að borgarstjóri Reykjavíkur hefur rætt við sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi og úkraínska borgarstjóra um að hefja samvinnu í formi tæknilegrar ráðgjafar frá OR um mögulega nýtingu á jarðvarma þar í landi.
Allt eru þetta mikilvægir þættir, ekki bara í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Úkraínu, heldur einnig hvað varðar enduruppbyggingu úkraínskra samfélaga eftir að átökunum lýkur.
Evrópusamtök sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélaga. Samtökin eru í forsvari fyrir rúmlega 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu. Hlutverk samtakanna er að vinna að framgangi hugsjóna um sameinaða Evrópu sem grundvallist á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og lýðræðislegum gildum.