Stafræn vegferð
Ný upplýsingaveita sveitarfélaga og endurskoðun á regluverki fjárhagsupplýsinga sveitarfélaga
27. mars 2025
Upplýsingaveita sveitarfélaga hjá Hagstofu Íslands, þar sem sveitarfélögum er í dag gert að skila inn fjárhagsupplýsingum sínum, verður endurhönnuð til að styðja frekar við fjárhagsleg markmið sveitarfélaga.

Um er að ræða upplýsingar um rekstur og fjárhag sveitarfélaga í samræmi við kröfur um færslu bókhalds auk framsetningu og skil á fjárhagsáætlunum og ársreikningum sveitarfélaga.
Markmiðið með nýrri upplýsingaveitu er að auka sjálfvirkni í skilum, bæta gæði fjárhagsupplýsinga og auka samanburðarhæfni þeirra. Þá er stefnt að aukinni skilatíðni og bættri endurgjöf til sveitarfélaga. Sambandið mun leiða vinnu við endurhönnun á núverandi upplýsingaveitu og taka yfir gagnasöfnun fjárhagsupplýsinga sveitarfélaga frá Hagstofu Íslands.
Mælaborð fyrir hvert sveitarfélag
Í framhaldi af þessari vinnu mun Sambandið útbúa mælaborð fyrir hvert sveitarfélag, byggt á þeim fjárhagsupplýsingum sem skilað er inn í upplýsingaveituna. Mælaborðið mun gera sveitarfélögunum kleift að sjá sína fjárhagsstöðu í samanburði við eigin fjárhagsáætlun og um leið bera sig saman við fjárhagsstöðu sambærilegra sveitarfélaga.
Endurskoðun á regluverki varðandi fjárhagsupplýsingar sveitarfélaga
Sambandið mun, ásamt innviðaráðuneytinu, vinna að heildarendurskoðun á því regluverki sem snýr að færslu bókhalds, framsetningu ársreikninga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga en mikil þörf er á því að endurskoða og samræma ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Markmiðið með þeirri endurskoðun er að auka samanburðarhæfni, gagnsæi og áreiðanleika gagnanna ásamt því að tryggja að framsetning fjárhagsupplýsinga sýni samræmda mynd af rekstri sveitarfélaga. Í þessari vinnu mun Sambandið kalla eftir aðstoð frá starfsfólki sveitarfélaga til að nýta þekkingu þeirra og reynslu á rekstri og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.