Sambandið
Jón Björn Hákonarson nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
20. mars 2025
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð, er nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann var kjörinn á fundi stjórnar Sambandsins í kjölfar landsþings í dag.

Jón Björn tekur við embættinu af Heiðu Björgu Hilmisdóttir, en hún tók þá ákvörðun að hætta sem formaður í kjölfar þess að hafa tekið við sem borgarstjóri í Reykjavík. Jón Björn var áður varaformaður frá árinu 2022.
Margrét Sanders, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, var kjörinn varaformaður Sambandsins á sama fundi, en hún hefur setið í stjórn síðan árið 2022.
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, kemur nýr inn í stjórn í stað Heiðu Bjargar og Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, kemur inn í stað Guðmundar Ara Sigurjónssonar sem sagði sig úr stjórn í kjölfar kjörs til Alþingis. Þá kemur Hildur Rós Guðbjargardóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði inn sem varamaður Önnu Sigríðar í stjórnina og Skúli Helgason, borgarfulltrúi í Reykjavík, sem varamaður Hjálmars.