Kjaramál
Jöfnun launa og kjara: Hvað hefur verið gert?
Kjaraviðræður Samninganefndar sveitarfélaga og fimm aðildarfélaga Kennarasambands Íslands (KÍ) standa nú yfir, en verkföll félagsmanna aðildarfélaganna eru hafin í níu skólum víðsvegar um landið. Enn hefur formleg kröfugerð frá KÍ ekki litið dagsins ljós en KÍ hefur sagt að málið snúist fyrst og fremst um að efna samkomulag frá 2016 þess efnis að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera yrðu jöfnuð almenna markaðnum.
Aðilar að samkomulaginu voru ríki, sveitarfélög, BSRB, BHM og KÍ. Frá árinu 2016 hefur verið unnin ítarleg greiningarvinna í samræmi við samkomulagið þó ekki hafi verið komist að sameiginlegri niðurstöðu um mælingar á launamun milli markaða. Sérfræðingar frá öllum bandalögunum hafa tekið þátt í þeirri vinnu, þar með talið fulltrúar KÍ. Eðli starfa opinberra starfsmanna og starfa á almennum vinnumarkaði eru um margt ólík og einnig hvernig vinnumagn starfsfólks er mælt. Þá eru önnur kjör launafólks sömuleiðis ólík milli markaða. Verðgildi annarra kjara og réttinda sem kennarar njóta umfram sérfræðinga á almennum vinnumarkaði s.s. ríkari veikindaréttur, lengra orlof, launaður tími til símenntunar, launuð námsleyfi o.fl. má jafna til 10% til 15% launaauka, sem horfa verður til við samanburð launa og kjara á milli markaða.
Það er ljóst að breytingar á launakjörum launafólks hafa verið umtalsverðar undanfarinn áratug. Þá hafa kjarabætur á opinberum markaði verið meiri en á almennum markaði og eru kennarar þar engin undantekning.
Tvö áfangasamkomulög í átt að jöfnun launa
Árið 2023 var gert áfangasamkomulag við BSRB, BHM og KÍ um skref í átt að jöfnun samhliða undirritun skammtímakjarasamninga. Þá náðist fyrr á þessu ári annað áfangasamkomulag við BSRB og BHM sem er frekara skref í átt að jöfnun fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um ómálefnalegan og kerfislægan launamun á milli markaða. Kennarasambandið sagði sig frá viðræðunum í janúar síðastliðnum og er því ekki hluti af öðru áfangasamkomulaginu. Það er þó þannig að KÍ stendur til boða sambærilegt skref í átt að jöfnun launa líkt og samið var um við BSRB og BHM með öðru áfangasamkomulaginu fyrr á þessu ári.
Samninganefnd Sambandsins ítrekar samningsvilja sinn og vonast eftir uppbyggjandi og gagnlegum samtölum við stéttarfélögin um lausn kjaradeilunnar. Þar berum við öll ábyrgð.