Sambandið
Heiða Björg kveður Sambandið á fertugasta landsþingi sveitarfélaga
20. mars 2025
Landsþing sveitarfélaga fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og kemur saman árlega, að jafnaði í mars eða apríl. Kjörnir fulltrúar sveitarfélaga um allt land ræða á landsþingi þau málefni sem helst brenna á sveitarfélögunum.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti landsþingið, sem var jafnframt hennar síðasta sem formaður en hún tók þá ákvörðun að hætta sem formaður í kjölfar þess að hafa tekið við sem borgarstjóri í Reykjavík. Í ávarpi sínu fór Heiða yfir helstu verkefni í sinni formannstíð og má þar nefna umfangsmiklar skipulagsbreytingar á Sambandinu, samstarfssamninga við umhverfisráðuneytið um hringrásarhagkerfi og lofslagsmál, mennta- og barnamálaráðuneytið um Frigg - nýjan gagnagrunn utan um skráningu upplýsinga um nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla, og dómsmálaráðuneytið um samstarf á sviði almannavarna.
Heiða Björg fjallaði einnig um tvo áfangasigra í málefnum fatlaðs fólks, en alls hækkuðu framlög til sveitarfélaga í málaflokknum undanfarin tvö ár um 12 milljarða króna í kjölfar breytingar á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk, sem er um 2% af heildartekjum sveitarfélagastigsins.
Þá fór Heiða Björg yfir samkomulag ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var í gær. Annars vegar um breytta ábyrgðarskiptingu í málefnum barna með fjölþættan vanda og hins vegar um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Í samkomulaginu felst að ríkið tekur að sér framkvæmd og ber ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis, og sagði Heiða meðal annars að þau börn sem um ræðir hafi miklar stuðningsþarfir og að það sé er gríðarlega mikilvægt að þessi viðkvæmi hópur fái þjónustu við hæfi og jafnræðis sé gætt til að veita slíka þjónustu. Þá munu sveitarfélög bera ekki lengur 15% stofnkostnaðar hjúkrunarheimila og þeim verður heimilt að innheimta gatnagerðargjöld. Sagði Heiða að undanfarin ár hafi byggst upp of fá hjúkrunarrými og að sveitarfélög muni áfram vinna með ríkinu að því að greiða fyrir uppbyggingu enda gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélaga að hafa aðgang að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávörpuðu þingið. Þau áttu svo samtal um sveitarstjórnarmál, ásamt Heiðu Björg, sem Þórdís Valsdóttir fjölmiðlakona stýrði.
Eftir hádegi hélt Saga Guðmundsdóttir, aðalhagfræðingur Sambandsins erindi um áhrif kjarasamninga á fjármál sveitarfélaga. Árni Sverrir Hafsteinsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fór svo yfir væntanlegar breytingar á jöfnunarsjóði.
Jón Björn Hákonarson, varaformaður Sambandsins, flutti lokaávarp á Landsþinginu og þakkaði hann Heiðu Björg fyrir góð störf í þágu sveitarfélaga landsins. Færði hann Heiðu Björg blóm fyrir vel unnin störf og gott samstarf.