Nánar um sveitarfélögin
Nánar um sveitarfélögin
Sveitarfélögin hafa nánast frá upphafi byggðar á Íslandi verið grundvallareining í stjórnskipan landsins. Fyrstu rituðu heimildirnar um sveitarfélögin, eða löghreppana eins og þau hétu þá, er að finna í Grágás, lögbók Íslendinga frá 12. öld. Þar segir að í löghreppi skuli vera 20 bændur eða fleiri.
Tilvist sveitarfélaganna á Íslandi má rekja til þeirra lýðræðislegu hefða sem landnámsmenn þekktu til úr norrænni menningu fyrri heimkynna. Upphaflegt hlutverk sveitarfélaganna mótaðist á grundvelli samhjálpar. Þótt sjálfstæði löghreppanna hafi endanlega verið afnumið af Danakonungi árið 1809 höfðu þeir í raun glatað því miklu fyrr.
Sveitarfélögin voru síðan endurreist með tilskipun frá Kristjáni IX. Danakonungi 4. maí 1872 en þá var lagður grunnur að þeirri sveitarfélagaskipan sem gilti fram undir síðustu aldamót. Fyrstu sveitarstjórnarlögin voru sett árið 1905.
Í ágúst 2024 eru sveitarfélögin í landinu 62 talsins.
Frá árinu 1950, þegar sveitarfélögin voru 229, hefur þeim því fækkað um 167.