Rekst­ur sveit­ar­fé­laga

Nú liggja fyrir ársreikningar all flestra sveitarfélaga eða þar sem tæplega 98% íbúa landsins búa. Niðurstaða ársreikninga A-hluta sveitarfélaga sýna talsverðan bata í rekstrarniðurstöðu á árinu 2024 en reksturinn hafði ekki skilað afgangi undafarin fjögur ár eða síðan fyrir heimsfaraldur kórónuveiru.

Afkomubatinn var þó ekki byggður á jafn sterkum grunni og árið 2023 þar sem bata í rekstrarniðurstöðu á árinu 2024 má að miklu leyti rekja til minni aukningar í lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga. Ef horft er framhjá rekstrarliðum sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi eða tilheyra reglulegum rekstri þá var veltufé frá rekstri óbreytt milli ára eða rétt ríflega 8% af tekjum. Sveitarfélög höfðu því álíka mikla fjármuni úr eigin rekstri til ráðstöfunar í fjárfestingar og afborganir lána og árið 2023. Á árinu 2024 drógu sveitarfélög þó úr fjárfestingu og lántöku svo skuldastaða sveitarfélaga batnaði því nokkuð.

Í dag eru 62 sveitarfélög á Íslandi og fækkaði þeim um tvö á árinu 2024. Fjárhagsstaða sveitarfélaga er eðli máls samkvæmt ólík en víðast hvar með ágætum. Árið 2024 voru þrjú af hverjum fjórum sveitarfélögum með veltufé yfir 8% af eigin tekjum. Rekstrar- og skuldastaða A-hluta var síst hjá sveitarfélögum innan rauðlitaða svæðisins en flest voru þau með lítið veltufé frá rekstri miðað við skuldsetningu þeirra. Þó skal vakin athygli á því að þetta á aðeins við um árið 2024 og ber ekki að lesa of mikið í eitt ár hjá einstaka sveitarfélagi, sér í lagi ef skuldsetning er ekki mikil.

Ef horft er til landshluta þá kemur upp nokkuð önnur mynd. Þá virðist nokkur fylgni milli meiri afgangs af rekstri og aukinnar skuldsetningar.