Fara í aðalefni

Gef­um kenn­ur­um svig­rúm til að sinna kjarna­starf­semi

Nú standa yfir kjaraviðræður Samninganefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna fimm aðildarfélaga þess undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Vilji sveitarfélaga til að eiga samtal og semja við kennara til lengri tíma er sannarlega fyrir hendi. Þá getur verið afar gagnlegt að byggja það samtal á staðreyndum og greiningum.

Kjarasamningar Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara, Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Félags stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélags Íslands runnu út 31. maí síðastliðinn. Leiðarstefnið í málflutningi stéttarfélaganna er krafan um jöfnun launa milli markaða, en engin kröfugerð um hvernig ná eigi slíku markmiði hefur borist frá viðræðunefnd KÍ.

Kröfuna má rekja til ársins 2016 en þá náðist samkomulag ríkis og sveitarfélaga við heildarsamtök opinberra starfsmanna um aldurstengd áunnin réttindi og 67 ára lífeyristökualdur. Með breytingunum varð lífeyriskerfi landsmanna fullfjármagnað og sjálfbært og launfólk fór að njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Þetta var mikilvægt skref í því að auka flæði milli markaða þar sem launafólki var nú gert kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hefði áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda.

Í sjöundu grein samkomulagsins frá 2016 er fjallað um sameiginlega stefnu opinberra laungreiðenda og bandalaga opinberra starfsmanna um að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera verði jöfnuð almenna markaðinum. Ekki hefur enn náðst sátt um endanlega niðurstöðu á aðferðarfræði við útreikning á launamun milli markaða enda er launasamanburðurinn flókinn sér í lagi fyrir þær stéttir þar sem opinberir launagreiðendur eru að meginstofni til eini launagreiðandinn. Hjá stéttum sem starfa að öllu jöfnu á almennum og opinberum vinnumarkaði má með auðveldari hætti gera launasamanburð en þá þarf einnig að líta til þess að launafólk metur einnig virði annarra kjara. Í ljósi þess að kjaraleg réttindi opinberra starfsmanna eru betri en á almennum vinnumarkaði, s.s. meiri orlofs- og veikindaréttur, framlög í sjóði, lengri uppsagnarfrestur, meira starfsöryggi og styttri vinnutími, þá getur launamunur milli markaða talist málefnalegur.

Á þessum forsendum náðist fyrra áfangasamkomulagið við BSRB, BHM og KÍ um skref í átt að jöfnun samhliða undirritun skammtímakjarasamninga árið 2023. Þá náðist fyrr á þessu ári annað áfangasamkomulag við BSRB og BHM sem er frekara skref í átt að jöfnun fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um ómálefnalegan og kerfislægan launamun á milli markaða. Kennarasambandið sagði sig frá viðræðunum í janúar síðastliðnum og er því ekki hluti af seinna áfangasamkomulaginu.

Menntakerfið er í skýrum forgangi á Íslandi

Öflugt menntakerfi er undirstaða efnahagslegrar hagsældar og félagslegrar velferðar í samfélaginu. Kennarar gegna þar gífurlega mikilvægu hlutverki í menntun barna og er ómæld virðing borin fyrir þeirra störfum. Kennarar styðja við nemendur, óháð stöðu þeirra, til að þroska hæfileika sína til fulls og undirbúa sig fyrir framtíðina. Það er alveg skýrt að íslensk stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) hafa lagt áherslu á menntamál enda eru útgjöld til grunnskóla óvíða meiri í heiminum og sama má segja um útgjöld vegna leikskóla og daggæslu. Hér á landi er hlutfall menntaðra kennara við grunnskólakennslu sambærilegt eða hærra en á hinum Norðurlöndunum. Þá eru bekkir að jafnaði smærri en í samanburðarlöndum, óvíða jafn fáir nemendur á kennara, auk þess sem að nýliðun í stéttinni er í góðu samræmi við meðaltal OECD ríkja. Þannig viljum við hafa þetta.

Kennsluskylda grunnskólakennara er óvíða minni

Það vekur helst athygli að hér á landi er tíma grunnskólakennara í vinnu líklega ekki nægilega vel varið. Innra starf skóla hefur þróast með þeim hætti að mikill hluti af vinnuframlagi grunnskólakennara fer í að sinna öðrum störfum en kennslu. Fjöldi greiddra stunda grunnskólakennara samkvæmt kjarasamningi eru 1752 klukkustundir á ári sem er að jafnaði sambærilegur fjöldi stunda og hjá dagvinnufólki á vinnumarkaði. Af heildarvinnuframlagi grunnskólakennara fara þó aðeins 641 klukkustund á ári í kennslu sem er talsvert minni kennsluskylda en í nær öllum samanburðarlöndum.

Þannig fer aðeins 37% af vinnutíma kennara hér á landi í kennslu nemenda en hlutfallið er nær 50% á hinum Norðurlöndunum og meðal OECD ríkja. Þá er 63% af tíma grunnskólakennara hér á landi varið í undirbúning, önnur fagleg störf, endurmenntun, kaffitíma, frímínútur og undirbúningstíma utan starfstíma skóla. Samsetning vinnuframlags grunnskólakennarar er talsvert ólíkt því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Staðin kennsla á Íslandi er til að mynda 15-20% minni en á hinum Norðurlöndunum og undirbúningur 10-25% meiri. Ástæða þess að Danmörk er ekki meðtalin á eftirfarandi mynd er vegna þess að þar er mikil dreifstýring. Skólastjórnendur þar í landi hafa nokkuð um það að segja hvernig tíma kennara er varið og samsetning vinnuframlags þeirra því ekki fyrirfram ákveðin. OECD birtir þó mat á meðalkennsluskyldu í Danmörku og eins og kom fram að ofan þá telja þeir hana að jafnaði 700 klukkustundir árlega.

*Ástæða þess að Danmörk er ekki meðtalin hér er vegna þess að þar er mikil dreifstýring. Skólastjórnendur í Danmörku hafa nokkuð um það að segja hvernig tíma kennara er varið.

Dreifni launa hvergi eins lítil

Kaupmáttarleiðrétt laun grunnskólakennara á Íslandi eru yfir meðaltali OECD ríkjanna. Hér á landi eru laun jafnframt hærri en í Svíþjóð og Finnlandi en lægri en í Noregi og Danmörku. Mesta athygli vekur afar lítil dreifni í launum kennara. Launahæstu grunnskólakennararnir eru með 8% hærri laun en nemur byrjendalaunum. Tækifæri til launaþróunar eru hvergi eins lítil meðal OECD ríkja. Til að bæta launakjör í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum þurfa grunnskólakennarar hreinlega að færa sig í stjórnunarstöður sem felur gjarnan í sér minni eða enga kennslu.

Alþjóðlegur samanburður á leikskólastiginu flóknari

Alþjóðlegur samanburður er flóknari þegar kemur að leikskólastiginu sem er í minna mæli í höndum hins opinbera. Það er talsverður breytileiki milli landa í samsetningu vinnuframlags leikskólakennara og oft gerður greinarmunur á leikskólakennslu yngri barna (0-3 ára) og þeirra eldri. Loks virðist vera talsvert meiri dreifstýring í rekstri leikskóla og hæfnisköfur starfsfólks ólíkar. Eitt er ljóst að undirbúningstími leikskólakennara hér á landi er talsvert lengri en á Norðurlöndunum og er hann til að mynda enginn í miðlægum kjarasamningum leikskólakennara í Danmörku og Svíþjóð. Þegar horft er til alþjóðlegs samanburðar á eldri deildum leiksólastigsins þá virðast kaupmáttarleiðrétt meðallaun leikskólakennara hærri en víða, á leikskólum eru fáir nemendur á kennara og stéttin ung.

Tækifærin eru kennara

Af alþjóðlegum samanburði má ætla að það vanti ekki fjármagn í menntakerfið þó það geti mátt verja því með markvissari hætti. Kennarar þurfa að fá svigrúm og rými til að verja meiri tíma í kennslu því kennarastéttin hefur tilskilda menntun og hæfni til að sinna kennslu nemenda. Ein hugmynd væri að bjóða kennurum upp á val, að þeir sem vilja auka kennslu og hækka laun sín hafi kost á því. Augljóst rými er til að auka kennsluskyldu í grunnskólum sem mætti dreifa yfir lengri tíma og forgangsraða kjarnaverkefnum kennara. Hvoru tveggja felur í sér tækifæri til að minnka vinnuálag á kennurum.

Vilji sveitarfélaga til að eiga samtal og semja við kennara til lengri tíma er sannarlega fyrir hendi. Þá getur verið afar gagnlegt að byggja það samtal á staðreyndum og greiningum. Hafa ber í huga að þær kjarabætur sem samið var um í upphafi árs með stöðugleikasamningum á almennum markaði hafa verið leiðarljós allra undirritaðra samninga opinberra launagreiðenda við stéttarfélög opinberra starfsmanna. Kjarasamningsbundar hækkanir stöðugleikasamninganna hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu hér í landi og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Lífskjaraþróun heimilanna veltur á þróun þessara hagstærða næstu misserin og eru félagsmenn Kennarasambands Íslands þar engin undantekning. Það er til mikils að vinna að auka efnahagslegan stöðugleika á Íslandi og setja ekki þegar gerða kjarasamninga í uppnám. Eigum samtal um skynsamar leiðir að farsælum langtímakjarasamningum í þágu stöðuleika, starfsánægju kennara, menntunar og farsældar íslenskra barna.