Saga sveitarstjórnarlaga

Um sveitarfélög eða „löghreppa“ er fjallað í lögbók Íslendinga frá 12. öld sem nefnist Grágás. Í 41. kafla þáttar Grágásar um fjárleigur segir að löghreppar skuli vera í landinu. Löghreppur er þar skilgreindur svo að þar skyldu vera tuttugu bændur eða fleiri, sem gegndu þingfararkaupi. Lögréttumenn gátu þó heimilað að færri bændur væru í löghreppi. Helsta hlutverk hreppa á þeim tíma var að annast fátækraframfærslu og tryggingar með samábyrgð bænda.

Tekjustofnar sveitarfélaga voru ákveðnir í svokölluðum tíundarlögum sem sett voru árið 1097 að forgöngu Gissurar Ísleifssonar biskups. Innheimta og skipting tíundarinnar var falin hreppunum sem fengu hluta af henni til fátækraframfærslunnar. Nefna má til fróðleiks að hluti tíundarlaganna gilti allt fram á 20. öld.

Í framhaldi af því að Ísland fór undir Noregskonung á árunum 1262–1264 voru að frumkvæði Magnúsar Hákonarsonar Noregskonungs lögteknar hér á landi lögbækur, sem breyttu ýmsum þáttum í löggjöf landsins. Fyrri lögbókin hefur verið nefnd Járnsíða og var hún samþykkt á Alþingi Íslendinga á árunum 1271 og 1272. Síðari lögbókin var lögtekin hér árið 1281 og nefnist hún Jónsbók. Enn má finna ákvæði úr henni í lagasafni sem eru í gildi, einkum ákvæði úr landsleigubálki, rekabálki, mannhelgi, kaupabálki og þjófabálki.

Jónsbók lögfesti þá skiptingu landsins í sveitarfélög sem þegar var orðin og gerði nokkrar breytingar á löggjöf um verkefni sveitarfélaganna. Meðal annars voru þá bruna- og búfjártryggingar felldar niður sem verkefni sveitarfélaga, breytingar voru gerðar á skipan sveitarstjórnar og sett ákvæði um framfærslumál. Síðar var bætt við ákvæðum um landbúnaðarmál með svokölluðum „réttarbótum“ og fleiri verkefni bættust á sveitarfélögin eftir því sem aldirnar liðu.

Árið 1809 gáfu Magnús Stephensen dómstjóri og báðir amtmenn landsins sameiginlega út erindisbréf fyrir hreppstjóra þar sem þeir voru gerðir að umboðsmönnum ríkisvaldsins og þeim jafnframt fækkað. Með þessu var sjálfstjórn sveitarfélaga afnumin, en sérákvæði giltu þó um kaupstaði. Stofnun sex kaupstaða hafði áður verið ákveðin með konunglegri auglýsingu frá 18. ágúst 1786. Sjálfstjórn kaupstaðanna var þó nokkuð takmörkuð fram til ársins 1836 er bæjarstjórn var komið á fót í Reykjavík með sérstöku erindisbréfi. Réttindi annarra kaupstaða voru síðan afturkölluð á fyrstu áratugum 19. aldar, en sérstaða þeirra hafði fyrst og fremst verið á sviði atvinnumála og sérstakrar réttarstöðu hluta íbúanna. Kaupstaðirnir utan Reykjavíkur höfðu ekki á þessum tíma sérstaka sveitarstjórn. Akureyri fékk kaupstaðarréttindi á ný árið 1862, Ísafjörður árið 1866 og síðar bættust fleiri kaupstaðir við. Í þau skipti fylgdu kaupstaðarréttindunum sérstök bæjarstjórn.

Ekki var mikil ánægja með afnám sjálfstjórnarréttar sveitarfélaganna meðal landsmanna. Eftir endurreisn Alþingis Íslendinga árið 1845 fóru að berast þangað bænaskrár og áskoranir frá héraðsfundum þar sem hvatt var til lagasetningar um sjálfstjórn sveitarfélaga. Alþingi samþykkti á árinu 1853 áskorun til konungs varðandi setningu nýrra sveitarstjórnarlaga og hófst þá margra ára ágreiningur milli Alþingis og danskra landsstjórnarmanna um efnisatriði slíkra laga. Ágreiningi þessum lauk með konunglegri tilskipun frá 4. maí 1872 um sveitarstjórn á Íslandi, sem varð í meginatriðum grundvöllur sveitarstjórnarlöggjafar á Íslandi þótt ýmsar breytingar hafi verið gerðar á henni.

Sveitarstjórnarlög voru sett 33 árum síðar, lög nr. 43/1905, og síðan komu sveitarstjórnarlög, nr. 12/1927, nr. 58/1961, nr. 8/1986 og nr. 45/1998 og nú hin nýjustu nr. 138/2011. Er þar fjallað um grundvallaratriði varðandi stjórnkerfi sveitarfélaga.

Heimild: Sesselja Árnadóttir: Sveitarstjórnarlögin ásamt skýringum og athugasemdum. Samband íslenskra sveitarfélaga 2007

Uppfært 2020 m.t.t. lagaþróunar